Innlent

Ekki rangt að útskrifa veikan mann

Aðeins munaði örfáum sekúndum að þrír ungir piltar yrðu fyrir bíl manns sem útskrifaður var af geðdeild alvarlega veikur í gær. Yfirlæknir geðdeildar Landspítalans segir að það hafi ekki verið rangt að útskrifa manninn. Maðurinn er nú vistaður á geðdeild en honum var sleppt út af deildinni í gær eftir að hafa verið sendur mjög sjúkur af meðferðarheimilinu í Hlaðgerðarkoti. Þegar hann hafði verið útskrifaður af geðdeildinni um hádegi í gær stal hann bifreið og ók henni út af við hringtorg í Mosfellsbæ. Greipur Hjaltason var ásamt bróður sínum Árna og Fannari Ásgeirssyni á gangi á göngustíg nærri hringtorginu þegar maðurinn kom á fleygiferð. Greipur segir manninn hafi ekið bílnum mjög hratt og mjög litlu hafi munað að hann hefði ekið þá alla niður. Aðspurðir hvað þeir hafi gert í kjölfarið segir Árni að hann hafi hlaupið að bílnum og spurt manninn hvort allt væri í lagi en hann hafi ekki svarað heldur ýtt honum og hlaupið að næsta bíl, hent bílstjóra hans út og ekið í burtu. Aðspurðir hvort þeim hafi brugðið segir Fannar að hann hafi fengið sjokk. Tómas Zoega, yfirlæknir á geðdeild Landspítalans, vildi ekki koma í sjónvarpsviðtal en sagði að þetta atvik undirstrikaði hvað mat á veikindum einstaklinga sem kæmu á deildina væri vandmeðfarið. Tómas segir að hegðun mannsins hafi alls ekki verið fyrirsjáanleg og því hafi hann verið útskrifaður. Spurður hvort matsferli geðdeildarinnar yrði endurskoðað eftir þetta atvik sagði Tómas að það yrði ekki gert. Svona tilvik hefðu komið upp áður og komi án efa til með að gerast í framtíðinni en að vonandi yrði hægt að koma í veg fyrir að slíkt endurtæki sig. Aðstandendur geðsjúkra hafa haft samband við fréttstofu í dag og sagt svipaða sögu. Ung kona segir að hún hafi farið með vin sinn á geðdeild mjög sjúkan og þar hafi læknanemi tekið á móti þeim. Eftir stutt spjall hafi læknaneminn tekið þá ákvörðun að ekki þyrfti að leggja manninn inn þrátt fyrir að konan hafi farið með hann á geðdeildina að ráði annars læknis. Sólarhring síðar var maðurinn lagður inn á geðdeild eftir að hafa hótað foreldrum sínum. Hjalti Árnason, faðir Greips og Árna, segir að ekki hafi mátt miklu muna að synir hans og vinur þeirra hefðu orðið fyrir bílnum. Hefðu þeir verið 7-10 sekúndum seinna á ferð hefðu þeir getað fyrir bílnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×