Innlent

Ekki áhyggjur af færri gistinóttum

Hótelum fjölgar en gestunum ekki ef marka má tölur um fjölda gistinótta á fyrstu mánuðum ársins. Samtök ferðaþjónustunnar segja enga ástæðu til að örvænta. Gistinóttum á hótelum landsins fækkaði um rúm níu prósent í mars miðað við sama mánuð í fyrra samkvæmt úttekt Hagstofu Íslands. Þorleifur Þór Jónsson, hagfræðingur hjá Samtökum ferðaþjónustunnar, segir langt frá því að markaðurinn sé mettur og að þessi úttekt sé ekki til að hafa áhyggjur af því horfa verði á tölur sem þessar í mun stærra samhengi. Ef menn einblíni á marsmánuð gætu þeir sé blikur á lofti en menn verði að horfa á það að mars í fyrra hafi verið óvenjugóður. Þegar bæði sé skoðuð þróun yfir lengri tíma og fyrstu þrír mánuðir ársins saman þá sé ástandið ekki þannig að ástæða sé til að rjúka upp til handa og fóta. Þorleifur segir enn fremur að það sé langt í land að ferðamannamarkaðurinn verði mettaður hér á landi og honum hafi verið sagt að umræðan um það hvort búið væri að byggja nægilega mörg hótel í Reykjavík hafi byrjað daginn sem Hótel Borg hafi verið opnað og hún hafi verið viðloðandi síðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×