Innlent

Rætt um kjör og biðlista

"Það vantar verulega á að hlustað sé nægilega vel á okkur í sambandi við kjörin. Þar þurfum við að gera stórátak," segir Benedikt Davíðsson, fráfarandi formaður Landssamands eldri borgara sem heldur landsfund á Kaffi Reykjavík í dag og á morgun. Tvö stærstu málin sem rædd verða á fundinum eru kjör eldri borgara, það eru tryggingar og skattlagning tryggingagreiðslna, og biðlistar á sjúkraheimili. "Biðlistarnir á hjúkrunarheimilin eru skollakornið ekkert að styttast," segir Benedikt, enda fjölgi mjög ört í hópi háaldraðra sem þurfi á þessari þjónustu að halda. Á fundinum verður hlítt á nokkur gestaerindi. Árni Magnússon félagsmálaráðherra, fjallar um umdeildan flutning á yfirstjórn málefna aldraðra frá heilbrigðis- og tryggingaráðuneyti til félagsmálaráðuneytis. Karl Steinar Guðnason, forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins, gerir grein fyrir endurkröfu Tryggingastofnunar á tryggingagreiðslum fyrri ára á hendur eldri borgurum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×