Innlent

Spáð góðu laxveiðisumri

Sérfræðingur Veiðimálastofnunar spáir bæði góðu laxveiðisumri um land allt og auknum stórlaxagöngum í ám fyrir norðan og austan.  Nú er aðeins rúmur mánuður í að laxveiði hefjist í ám landsins en undanfarin ár hefur hún farið stöðugt vaxandi. Reyndar var síðastliðið sumar í flokki þeirra fimm gjöfulustu undanfarna þrjá áratugi. Og veiðimenn hafa ástæðu til bjartsýni um komandi sumar miðað við þá spá sem kynnt var á ársfundi Veiðimálastofnunar í dag. Guðni Guðbergsson, fiskifræðingur á Veiðimálastofnun, segir horfurnar frekar bjartar miðað við veiðina undanfarin ár. Síðasta ár hafi verið gott og bæði góðu og slæmu árin fylgist yfirleitt að. Guðni spáir einnig fleiri stórlöxum, einkum norðanlands og austan. Hins vegar verði að geta þess að fjöldi þeirra hafi minnkað á undangengnum árum. Áhugamenn um silungsveiði fá einnig jákvæðar fréttir. Veiðin á bleikju hefur verið stöðug á undangengnum tíu árum en hins vegar hafa menn verið að sjá mjög aukna sjóbirtingsgengd í mjög margar ár. Síðasta ár var líka metár í skráðri stangveiði á sjóbirtingi og urriða og á Guðni von á að það komi til með að aukast áfram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×