Innlent

Um 300 í reiðhjólalest í Reykjavík

Lest reiðhjóla fór um Reykjavík í blíðunni í dag en hún var hluti af fyrirtækjakeppninni Hjólað í vinnuna, sem nú er í fullum gangi. Talið er að allt að 300 manns hafi tekið þátt í hjólalestinni. Lagt var af stað frá Nauthólsvík um klukkan eitt í dag. Hjólað var eftir Suðurgötu, að Reykjavíkurhöfn, þaðan með fram Sæbrautinni og inn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Allir sem þangað komu á hjóli og að sjálfsögðu með hjálm á höfði fengu ókeypis aðgang að fjölskylduhátíðinni sem þar var haldin. Farið var rólega yfir og gátu þeir sem þreyttust hvílt sig í vetnisstrætó sem fylgdi lestinni alla leið. Að lokinni hátíðinni var hjólreiðaköppunum síðan boðið að fara ókeypis með strætónum í úthverfi borgarinnar og nýttu margir sér þann kost. Veðrið var gott í höfuðborginni í dag enda þátttakan með besta móti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×