Innlent

Hjólað um Reykjavík í dag

Reiðhjólalest mun silast um Reykjavík í dag. Tilefnið er fyrirtækjakeppnin Hjólað í vinnuna. Hjólalestin leggur af stað klukkan eitt úr Nauthólsvík en klukkustund áður, klukkan tólf, munu þrjár minni lestir fara úr Spönginni, Mjódd og Smáratorgi og að Nauthólsvík. Meðal lestarstjóra verður Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra. Farið verður rólega yfir og þeir sem þreytast geta hvílt sig í vetnisstrætó sem fylgir lestinni alla leið. Frá Nauthólsvík verður hjólað með fram ströndinni og síðan eftir Suðurgötu og niður að Reykjavíkurhöfn en áætlað er að vera við gömlu eimreiðina klukkan hálftvö. Þaðan verður svo hjólað eftir Sæbraut og Sundlaugaveg og síðan inn í Laugardal en áætlað er að koma í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn klukkan tvö. Allir sem þangað koma á hjóli og með hjálm á höfði fá ókeypis aðgang en þar verður fjölskylduhátíð. Loks verður boðið upp á ókeypis ferðir með vetnisstrætó úr Húsdýragarðinum klukkan hálffjögur í Nauthólsvík, Spöngina, Mjódd og Smáratorg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×