Innlent

Sjóvá greiði 27 milljónir

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti í gær úrskurð samkeppnisráðs um að Sjóvá-Almennar tryggingar hf. skuli greiða 27 milljóna króna stjórnvaldssekt vegna brots á 10. grein samkeppnislaga. Málið kom upphaflega fram í júlí 2002 þegar starfsmaður bílaréttingafyrirtækis tjáði Samkeppnisstofnun að VÍS, TM og Sjóvá væru öll að setja upp svokallað Cabas-tjónamatskerfi til að staðla þá vinnu sem unnin er við réttingar og sprautun á tjónabifreiðum og að öll félögin settu upp sama verðið samkvæmt kerfinu. Bæði VÍS og TM gengust við því að hafa brotið á 10. grein samkeppnislaga og náðu sáttum við samkeppnisráð um sektargreiðslur, VÍS upp á 15 milljónir og TM upp á 18,5 milljónir. Sjóvá gekkst hinsvegar ekki við brotinu og þurfti því stjórnvaldsúrskurð samkeppnisráðs til. Samkeppnisráð sektaði Sjóvá-Almennar um 27 milljónir. Þeim úrskurði var áfrýjað til áfrýjunarnefndar samkeppnismála sem staðfesti úrskurðinn í gær. Sjóvá hefur nú mánaðarfrest til að greiða sektina en getur engu að síður farið með málið fyrir almenna dómstóla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×