Innlent

Öll tilboð reyndust yfir áætlun

Öll þrjú tilboðin sem bárust í breikkun gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar reyndust töluvert yfir kostnaðaráætlun. Það verður þó ekki til að seinka verkinu. Gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar eru fjölförnustu gatnamót landsins en um þau fara að meðaltali 40 þúsund bílar á dag. Lengi hefur staðið til að gera þar mislæg gatnamót en ákveðið var í vetur að fresta því og breikka gatnamótin þess í stað. Vegagerðin áætlaði að kostnaðurinn við framkvæmdina yrði um 210 milljónir króna en lægsta tilboðið í verkið hljóðaði upp á tæplega 230 milljónir. Það tilboð áttu Heimir og Þorgeir ehf. en Klæðning bauð 250 milljónir og Ístak tæpar 253 milljónir króna, eða tuttugu prósentum yfir áætlun. Þessi háu tilboð komu Jóhanni Bergmann, deildarstjóra hjá Vegagerðinni, ekki mjög á óvart. Hann segir verkið mjög erfitt enda umferð mikil á staðnum og það séu gerðar strangar kröfur um að halda umferðarflæði sem eðlilegustu. Reikna megi með að stýring umferðar kosti töluverða peninga. Jóhann segist hins vegar hafa búist við fleiri tilboðum þó að þau yrðu kannski ekki lægri. En lýsir þetta ekki bara ástandinu á markaðnum - það er nóg að gera hjá flestum verktakafyrirtækjum? Jóhann segir það spila inn í en einnig treysti verktakar sem séu með minna umleikis sér ekki í svo viðamikla stjórnun og þarna eigi að fara fram. Jóhann segist reikna með að gengið verði til samninga. Nú séu tilboðin í mati svo það sé ekki ljóst við hvern verði samið. Verkinu á að vera lokið 1. september og Jóhann segir þá áætlun standa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×