Innlent

Níundubekkingar í MA

Menntamálaráðuneytið hefur veitt Menntaskólanum á Akureyri heimild til að taka við takmörkuðum fjölda afburðanemenda sem ljúka 9. bekk í vor og þeir nemendur þurfa því ekki að fara í 10. bekk að hausti. Um er að ræða fjögurra ára tilraunaverkefni og er MA eini skólinn á landinu þar sem þessi kostur er í boði. Jón Már Héðinsson, skólameistari MA, segir að í haust verði tekið á móti fyrstu fimmtán nemendunum en þeir einir geta sótt um inngöngu sem fengið hafa átta eða meira í meðaleinkunn í 9. bekk. "Þetta er okkar leið til þess að skapa fljótandi skil milli grunn- og framhaldsskóla," segir Jón Már. "Við munum vanda valið á þeim nemendum sem við tökum inn á þá almennu bóknámsbraut sem í boði er og ræða við nemendurna sem koma til greina og forráðamenn þeirra. Bekkirnir verða fámennir og því verður kennslan mun einstaklingsmiðaðri en í stærri bekkjum og sérstakur umsjónarmaður mun leita leiða til að bjóða upp á nýjungar í námi," segir Jón Már. Kynningarfundur um verkefnið verður haldinn næstkomandi mánudag en umsóknarfrestur er til 14. júní og geta dugmiklir nemendur af öllu landinu sótt um inngöngu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×