Innlent

Ryður brautina fyrir önnur félög

Breska kvenfataverslanakeðjan Mosaic Fashion undirbýr skráningu í Kauphöll Íslands í kjölfar hlutafjárútboðs fyrir 4,8 milljarða króna. Með skráningunni verður Mosaic fyrsta erlenda félagið sem skráð er í Kauphöll Íslands og segir forstjóri Kauphallarinnar það geta rutt brautina fyrir önnur erlend félög. Mosaic Fashion á og rekur meira en 600 kvenafataverslanir undir merkjum Oasis, Coast, Karen Millen og Whistles og eru flestar verslanir í Bretlandi og á Írlandi en þrjár verslanir eru á Íslandi. Um síðustu áramót var heildarfjöldi starfsmanna bresku keðjunnar um 5.400. Baugur Group og Kaupþing banki eiga meirihluta í félaginu en rekstur Mosaic Fashion hefur gengið mjög vel undanfarin ár. Nam velta síðasta árs ríflega fjörutíu og þremur milljörðum íslenskra króna. Verið er að undirbúa skráningu félagsins í Kauphöll Íslands í tengslum við fyrirhugað tæplega fimm milljarða króna hlutafjárútboð sem beint verður til almennings og fagfjárfesta. Seldir verða nýir hlutir og er stefnt að því að hlutafé félagsins verði skráð fyrir lok júní næstkomandi í almennu útboði. Með skráningunni verður Mosaic Fashion fyrsta erlenda fyrirtækið sem skráð er í Kauphöll Íslands. Það verður jafnframt í hópi stærstu félaga í kauphöllinni en breska kvenfataverslanakeðjan nær aftur til ársins 1981 með stofnun Karen Millen. Derec Lovelock, forstjóri Mosaic Fashion, segir skráninguna enn eitt skrefið í þeirri stefnu félagsins að verða leiðandi alþjóðlegt tískuvörufyrirtæki með áframhaldandi uppbyggingu sterkra vörumerkja. Tilgangurinn sé að afla fjár til frekari útrásar og vaxtar. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir skráninguna hafa mikla þýðingu fyrir kauphöllina og geta rutt brautina fyrir skráningu annarra erlendra félaga.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×