Sport

Rooney horfir til framtíðar

Framherjinn ungi, Wayne Rooney hjá Manchester United, hefur varað lið Chelsea við að sínir menn verði sterkari á næsta ári og að þá muni þeir gera harðari atlögu að Englandsmeistaratitlinum. Rooney var um helgina valinn besti ungi leikmaðurinn í deildinni af samtökum leikmanna og í viðtali við breska blaðið The Sun, lýsti hann yfir bjartsýni sinni yfir gengi sinna manna á næsta ári. "Við ætlum að reyna að vinna enska bikarinn núna til að bæta fyrir annars dapra leiktíð og ætlum okkur að nýta okkur þann meðbyr yfir á næstu leiktíð. Chelsea hafa verið frábærir í vetur og mig langar að nota þetta tækifæri og óska þeim til hamingju með að vera nánast orðnir meistarar. Ef þeir halda hinsvegar að þetta verði jafn auðvelt á næsta ári, hafa þeir rangt fyrir sér. Við höfum ungt og sterkt lið sem getur verið í baráttunni um titilinn á næsta ári og þegar maður leikur fyrir Manchester United er slíkt eðlileg krafa," sagði Rooney.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×