Sport

Rooney kærir The Sun

Enski knattspyrnulandsliðsmaðurinn Wayne Rooney hefur lagt fram kæru á hendur götublaðinu The Sun sem heldur því fram að sóknamaðurinn ákafi hafi lagt hendur á kærustu sína á skemmtistað í Manchester. Meint atvik á að hafa átt sér stað 10. apríl sl. og segir blaðið að Rooney hafi verið úti að skemmta sér ásamt liðsfélögum sínum úr Man Utd. Rooney þverneitar að hafa slegið kærustuna sína, Colleen McLoughlin en blaðið hélt því fram að hann hafi hellt yfir hana úr glasi sem hann var með og síðan slegið hana. Lögmaður Rooney staðfesti í dag að hann færi með þetta mál fyrir umbjóðanda sinn og sagði ásakanir blaðsins vera alveg út í hött. Rooney hefur heldur betur fengið að heyra það vegna meints atviks í vikunni. Coke Cola sem er með svimandi háan auglýsingasamning í gangi við Rooney krafðist þess í fyrradag að leikmaðurinn myndi biðja opinberrar afsökunar á framferði sínu ella myndi fyrirtækið rifta samningnum. Rooney er ekki aldeilis á þeim buxunum og ætlar áð ljúka málinu fyrir dómstólum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×