Sport

Diouf vill semja við Bolton

Senegalski framherjinn El-Hadji Diouf, sem verið hefur lánsmaður hjá Bolton á leiktíðinni, segist vilja gera samning við félagið og vera þar áfram. Diouf er samningsbundinn Liverpool, en náði ekki að festa sig í sessi hjá liðinu. Eftir að hann gekk í raðir Bolton hefur hinsvegar gengið betur hjá kappanum og hann hefur verið einn af lykilmönnum í góðu gengi liðsins í vetur og félagið sér fram á að tryggja sér þáttöku í Evrópukeppninni á næsta ári. "Ég er ánægður hjá Bolton, við erum með gott lið og allur aðbúnaður hér hefur verið frábær. Ég mun án efa eiga fund með Sam Allardyce eftir að leiktíðinni líkur og segja honum afstöðu mína í málinu," sagði Diouf. Allardyce, sem er knattspyrnustjóri Bolton, segir að tvö atriði beri að hafa í huga varðandi hugsanleg kaup á leikmanninum. "Í fyrsta lagi þurfum við að komast að samkomulagi við Liverpool um verðið á honum, því mig grunar að það gæti orðið okkur ofviða, en svo þurfum við líka að taka til greina hvort við getum fundið einhverja lausn á agavandamálum hans, sem hafa verið okkur dýr á köflum í vetur," sagði Allardyce. Engum dylst að Diouf er hæfileikaríkur knattspyrnumaður, en hann hefur oft ratað í vandræði með skapið á sér og verið refsað fyrir það, sem er eitthvað sem knattspyrnustjóri hans hefur ekki verið sérlega hrifinn af.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×