Innlent

Vaxtabætur skornar niður

Við útreikning gjalda vegna skattframtals hafa komið upp dæmi þar sem vaxtabætur fólks lækka umtalsvert milli ára. Þar spilar meðal annars inn í breyting sem gerð var á lögum um tekju- og eignarskatt árið 2003 en kemur nú til framkvæmdar og felst í því að vaxtagjöld geta nú ekki verið hærri en sem nemur 5,5 prósentum af skuldum, í stað 7 prósenta áður. Við næstu skattskil lækkar þetta hlutfall svo enn og verður 5 prósent. Vaxtabætur eru ákvarðaðar eftir einni af þremur leiðum, en ávallt valin lægsta tala. Litið er til krónutölu samkvæmt framtali, hlutfalls af eftirstöðvum skulda, eða hámarksupphæðar vaxtabóta. Þegar búið er að finna upphæð dragast frá 6 prósent af tekjuskattsstofni og samkvæmt gildandi skattalögum eru greidd út 95 prósent af vaxtabótunum. Í fyrra var þetta hlutfall 90 prósent, en fyrir þann tíma var sú viðbótarskerðing ekki til staðar. Ívar Guðmundsson, endurskoðandi hjá Deloitte, segir marga hluti hafa áhrif á hversu miklar vaxtabætur fólk fær greiddar. "Ég sé mörg svona dæmi og af ýmsum toga þar sem ólíkir hlutir hafa áhrif. Fólk fer upp í tekjum og eignum og fasteignamat rýkur upp meira en skuldir. Vaxtabætur skerðast við að hrein eign fer yfir ákveðin mörk og hef ég séð að sumt fólk missir vaxtabætur og hreina eiginin fer yfir mörkin. Þetta er því margslungið," segir hann og telur erfitt að átta sig á hversu mikil áhrif breytingin á endurgreiðslum sem hlutfall af skuldum hafi. "Við sem vinnum við þetta erum að sjá vaxtabætur ganga niður, en reyndar ekki hjá þeim sem eru í skuldasúpunni. Þar er sáralítil hreyfing, en þeir sem eru á mörkunum og voru í fyrra og hitteðfyrra að fá einhverja tugi þúsunda, detta núna allt í einu út." Þóra Margrét Þorgeirsdóttir sérfræðingur á skatta- og lögfræðisviði Doloitte segir ekki hafa verið skoðuð sérstaklega áhrif á einstaklinga þegar farið var yfir skattalagabreytingafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Hún telur óvíst að heildarútgjöld ríkissjóðs vegna vaxtabóta hafi mikið breyst vegna breytingarinnar á greiðslum í hlutfalli við skuldir þó svo að einhver tilfærsla kunni að hafa orðið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×