Skoðun

Orðasmíð í formannskjöri

Stjórnmálabarátta - Birgitta Bragadóttir "Alltaf skal það nú heita eitthvað," sagði gömul kona, sem nú er löngu dáin, margoft á dag og reri fram í gráðið. Það verður að segjast eins og er að mér verður oft hugsað til þessarar konu. Ekki veit ég hvað hún átti við með þessum orðum, þau létu í mínum eyrum eins og nokkurs konar uppgjör við lífið sem hafði ekki alltaf farið um hana mjúkum höndum. Það er algeng aðferð í umræðum um ýmis hitamál, þegar rökin þrýtur, að menn noti þá baráttuaðferð að henda eitthvert neikvætt orð á lofti og beina því eins og vopni gegn þeim sem við er að etja hverju sinni. Hugmyndafluginu eru þá lítil takmörk sett. Oftar en ekki duga algeng og hversdagsleg orð til, svo sem dylgjur, slúður, málþóf o.s.frv., en stundum taka menn sig til og hafa fyrir því að smíða nýjar og frumlegar samsetningar eins og frægt er orðið. Mönnum hefur jafnvel verið hampað fyrir þessa listgrein og gott ef ekki er komin í gang einhver keppni á þessu sviði milli Davíðs og Steingríms Joð. Nýjasta orðið sem ég heyrði í þessa veruna er orðið <I>stjörnupólitík<P> en það hefur verið notað á síðum dagblaðanna nú undanfarið til þess að lýsa skoðunum fólks sem vill fá hæfasta og reyndasta einstaklinginn í flokknum sínum - þann sem er líklegastur til þess að afla stefnumálum hans fylgis - til þess að vera helsti málsvari hans. (Á mínu máli heitir það skynsemi.) Ég velti því líka fyrir mér af hverju þetta orð er að dúkka upp núna, þessi umrædda "stjarna" er jú búin að vera lengi í pólitík og engum þeirra sem nú smjatta hvað mest á þessu orði hefur dottið í hug að nota það fyrr. En alltaf skal það nú heita eitthvað - þar rataðist gömlu konunni satt á munn. Höfundur er félagi í Samfylkingunni.



Skoðun

Sjá meira


×