Erlent

Ófriðarbálið í Írak magnast á ný

Átján manns biðu bana og 36 særðust þegar tvær bílsprengjur sprungu nálægt skrifstofum innanríkisráðuneytisins í Bagdad í gærmorgun. Al-Kaída í Írak kveðst bera ábyrgð á tilræðunum. Eftir fremur friðsælt skeið í Írak að undanförnu hefur síðasta vika verið óvenju ofbeldisfull. Á þriðjudaginn fórust fimm í tilræði í Mosul og í fyrradag týndu sautján lífi í sprengingum í Bagdad og Kirkuk. Fylgismenn al-Kaída í Írak virðast vera að færa sig upp á skaftið því auk árásarinnar í gær segjast þeir ábyrgir fyrir tilræðinunum á miðvikudag. Í yfirlýsingu á netinu segir Abu Musab al-Zarqawi, talsmaður þeirra, að sprengjunum sé beint gegn lögreglumönnum í landinu. Bandarískir hermenn fundu bíl í Bagdad í gær með ósprungnum sprengjum og sprengdu þeir bílinn á öruggum stað. Í borginni Baqouba skutu uppreisnarmenn lögregluþjón og nærri Kirkuk voru sex lögregluþjónar stráfelldir af byssumönnum. Skæruliðasamtökin Ansar al-Sunnah stóðu á bak við þær árásir en í yfirlýsingu sinni í gær kveðast þau hafa hafið samstarf við liðsmenn al-Kaída í Írak.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×