Erlent

Slæðubannið hefur reynst vel

"Slæðubannið" svokallaða, lög sem sett voru í Frakklandi fyrir rétt rúmu ári sem banna áberandi trúartákn í ríkisskólum, er leið til lausnar á aðlögun múslima og annarra innflytjendahópa að þjóðfélagi þar sem gildi eins og frelsi einstaklingsins og jafnrétti allra borgara eru í hávegum höfð. Þetta segir franski stjórnmálaheimspekingurinn Blandine Kriegel, en hún hefur á síðustu árum starfað sem sérstakur ráðgjafi Jacques Chirac Frakklandsforseta í málefnum innflytjenda og er formaður ráðgjafarnefndar frönsku ríkisstjórnarinnar um aðlögun fólks af erlendum uppruna að frönsku samfélagi. Kriegel flytur einn af aðalfyrirlestrunum á málþingi sem haldið er til heiðurs Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, en það fer fram í Háskóla Íslands í dag og á morgun. Fyrirlestur Kriegel fjallar um stefnu Frakka í trúmálum. "Lögin hafa sannað gildi sitt," segir Kriegel, spurð um reynsluna af "slæðubanninu". "Áður en lögin tóku gildi fóru um 1.500 stúlkur fram á að fá að ganga áfram með slæðu [í ríkisreknum skólum Frakklands] - en á þessu fyrsta gildisári bannsins hafa aðeins 48 beiðnir um undanþágu komið fram," bendir Kriegel á sem dæmi um árangurinn. Hún segir góða sátt hafa náðst um þessa ráðstöfun. Kriegel útskýrir að í sögu Evrópulanda hafi mismunandi lausnir verið fundnar til lausnar á átökum ólíkra trúarhópa. Í Hollandi, Bretlandi og almennt í Norður-Evrópu hafi einn ráðandi siður orðið ofan á en minnihlutahópum tryggður réttur til að iðka sinn sið í friði, í nafni trúfrelsis, réttarríkis og umburðarlyndis. Í Frakklandi hafi hins vegar hreyfingar kaþólskra og mótmælenda verið báðar það jafnöflugar, að á sínum tíma hafi náðst samkomulag um að halda hinu opinbera rými sem hlutlausu svæði í trúmálum. Um hið opinbera rými, þar á meðal ríkisrekna skóla, setti ríkisvaldið reglur sem tæki mið af þessu. Enn þann dag í dag væri samstaða um þessa grundvallarreglu meðal Frakka. Og Kriegel segir hana hjálpa innflytjendum úr ólíkum menningarheimi að temja sér virðingu fyrir hinum frjálslyndu gildum frönsku stjórnarskrárinnar, til dæmis hjálpi það múslimskum karlmönnum að virða eiginkonur sínar og dætur sem jafnréttháa einstaklinga - að minnsta kosti í hinu opinbera rými.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×