Erlent

Banvænar veirur í póstinum

Tilraunaglös með afar skæðri flensuveiru voru fyrir mistök send til 3.700 tilraunastofa víða um heim og hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hvatt til að þau verði eyðilögð hið snarasta. Tilraunaglösin voru í prófunarsetti sem rannsóknarstofur nota við eigin gæðastjórnun og innihalda vanalega flensustofna sem eru í umferð. Settin sem send voru til tilraunastofanna 3.700 innihéldu hins vegar afar skæðan flensustofn sem gekk um heiminn árið 1957 og lagði milljónir fólks í valinn. Veiran hefur ekki verið notuð í bóluefni síðan 1968 og því er stór hluti jarðarbúa mótefnislaus gagnvart henni. Flest settin voru send á stofur í Bandaríkjunum en nokkur hluti slæddist til Evrópu. "Það er öruggt að þetta hefur ekki komið hingað til lands því við verslum ekki við þetta fyrirtæki sem sendi búnaðinn," segir Arthúr Löve, prófessor við Rannsóknarstofu í veirufræði. "Þar að auki er þetta aðeins sent til rannsóknarstofa þar sem ítrustu varúðar er gætt þannig að hættan á því að veirur dreifist út frá rannsóknarstofum er afar lítil," bætir hann við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×