Erlent

Eldgos á Súmötru

Mikill viðbúnaður er á Súmötru eftir að eldfjallið Talang á norðvestanverðri eyjunni tók að gjósa. Þá hafa tvö önnur eldfjöll í Indónesíu látið á sér kræla. 25.000 manns sem búa í námunda við Talang-fjall flýðu heimili sín í gærmorgun eftir að gosmökkur tók að stíga upp af fjallinu. Öskufalls varð vart í hlíðum þess en ekki hefur orðið vart hraunrennslis. Skynjarar í hlíðum Anak Krakatá, syðst á Súmötru, og Tangkuban Prahu á Jövu mældu aukna virkni í fjöllunum. Jarðfræðingar telja að eldvirknin tengist jarðskjálftunum miklu sem orðið hafa undan ströndum Súmötru undanfarna mánuði. Að sögn Ómars Valdimarssonar, sendifulltrúa Rauða krossins á Súmötru, eru hjálparsamtök á svæðinu þegar farin að aðstoða þá sem flýja þurftu heimili sín. Tjöldum hefur verið slegið yfir flóttamennina og þeim gefinn matur. Hann segir fólkið afar óttaslegið enda hefur mikið gengið á síðustu daga. Þar við bætist landlæg hjátrú og nefnir Ómar að forseti landsins hafi verið hvattur til að slátra þúsund kindum til að friða guðina svo óáraninni linnti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×