Erlent

Mannskæð veira í Angóla

Mannskæður og óhuggulegur vírus, svokallaður Marburg-vírus, veldur miklu mannfalli í Angóla. Fáum dögum eftir smit deyr fólk og engin lækning finnst. Í fyrstu voru tilfellin fá. Nokkrir sjúklingar, einn eða tveir á dag, lifðu ekki skæðan og grimmilegan sjúkdóm af. Læknar í Angóla áttuðu sig ekki á því hvað var á seyði en nú, nokkrum mánuðum síðar, er ástandið bæði verra og mannfallið meira. Í ljós kom að svokölluð Marburg-veira breiðist út. Haraldur Briem sóttvarnalæknir segir að um veirusjúkdóm sé að ræða sem gangi undir nafninu blæðandi veiruhitasótt og sé náskyldur ebola-sjúkdómnum. Sjúkdómurin lýsi sér í því að menn veikist með bráðum einkennum. Venjulega fylgi honum hár hiti, vöðva- og höfuðverkir, eins konar hálsbólga og uppköst og niðurgangur. Síðar komi útbrot og blæðingar í húð og innri líffærum sem á endanum dragi fólk til dauða. Fjölskyldur sjúklinga neita að koma með þá á sjúkrastofnanir sem heilbrigðisstarfsfólk segir valda verri faraldri. Einnig virðist nokkuð um það að hreinlætis sé ekki gætt á sjúkrahúsum og veikin breiðist þar út. 203 heilbrigðisstarfsmenn hafa látist eftir að hafa smitast af Marburg-veirunni. Þetta hefur ekki farið fram hjá íbúum á þeim svæðum þar sem vírusinn hefur valdið manntjóni og fólk virðist kenna heilbrigðisstofnunum um. Til að mynda neyddust starfsmenn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar til að flýja eftir að starfsstöð þeirra var grýtt. Engin meðferð er til við sjúkdómnum. Aðspurður hvaðan sjúkdómurinn komi segir Haraldur að það sé mikil ráðgáta hvar veiran haldi til í náttúrunni. Hins vegar sé vitað að hún geti sýkt apa og apar hafi sýkt menn. Það hafi gerst í þýsku borginni Marburg 1967. Þá hafi svokallaðir grænir apar verið fluttir til Þýskalands og Júgóslavíu sem átt hafi að nota við rannsóknir. Þá hafi á fjórða tug mann veikst af sjúkdómnum en sem betur fer hafi þetta ekki orðið að mikilli farsótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×