Erlent

Stýrði kirkjunni á umbrotatímum

Jóhannes Páll páfi var næstlengst allra páfa á páfastóli, stýrði kaþólsku kirkjunni í gegnum umbrotatíma í heimssögunni og braut blað í sögu hennar. Jóhannes Páll páfi var fyrsti páfinn sem messaði í kirkju mótmælenda, sá fyrsti sem steig fæti inn í bænahús gyðinga og mosku. Hann var fyrsti páfinn í 455 ár sem ekki var ítalskur. Hann braut blað í sögu kaþólsku kirkjunnar þegar hann bað um fyrirgefningu fyrir þær syndir sem drýgðar hefðu verið í nafni trúarinnar árið 2000. Hann var óhræddur við að beita páfastóli sem vettvangi til gagnrýni á atburði líðandi stundar. Pólitískra áhrifa hans gætti ekki síst í Póllandi þar sem kaþólska kirkjan var öflugt þjóðfélagsafl í byrjun níunda áratugarins. Þorleifur Friðriksson sagnfræðingur segir að Samstaða, sem stofnuð var árið 1980, hafi notið stuðnings kaþólsku kirkjunnar og páfa sem hafði þá setið í tvö ár. Eftir að Samstaða hafi gert samning við pólsk stjórnvöld í ágúst 1980 í kjölfar átaka hafi tekið við gríðarleg gerjun í pólsku samfélagi sem hafi leitt til sigurs Samtöðu árið 1989. Við árið 1989 sé gjarnan miðað þegar talað sé um fall múrsins og hrun austurblokkarinnar. Síðar gagnrýndi hann stríðið í Írak og taumlausan kapítalisma. Þrátt fyrir þessa baráttu var hann íhaldssamur og kirkjan ber merki þess. Konur voru ekki jafnar körlum í kaþólsku kirkjunni hans, hann kunni ekki að meta frjálslynda hugsuði innan hennar og bannaði jafnvel bækur þeirra í Páfagarði. Hann fordæmdi samkynhneigð og vildi ekki mæla með notkun smokka þrátt fyrir að það gæti dregið úr útbreiðslu alnæmis sem fer sem eldur í sinu um þau lönd þar sem kaþólskur siður hefur fest rætur undanfarna áratugi, ekki síst fyrir atbeina Jóhannesar Páls. Sumir gagnrýnendur hans segja kaþólska kirkju klofna eftir páfatíð hans en að sama skapi er ljóst að eftirmaður hans mun eiga erfitt með að feta í fótspor páfans frá Póllandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×