Erlent

Myrti níu og stytti sér svo aldur

Unglingspiltur gekk bersersksgang á verndarsvæði indíána í Minnesotaríki í Bandaríkjunum í gær og myrti níu manns áður en hann stytti sér aldur. Flest fórnarlambanna voru skólafélagar piltsins en auk þess banaði hann ömmu sinni og afa. Þetta er versta tilræði sinnar tegundar síðan Columbine-morðin áttu sér stað árið 1999 en þá lágu 13 manns í valnum.. Sorgin vitjaði verndarsvæðis indíána við Red Lake í Minnesota í fyrrakvöld þegar unglingspiltur, Jeff Weise að nafni, myrti níu manns áður en hann banaði sjálfum sér. Fyrst til að falla fyrir hendi Weise voru amma hans og afi en talið er að pilturinn hafi stolið skotvopnunum sem notuð voru við drápin frá afa sínum en hann var fyrrverandi lögreglumaður. Næst lá leiðin í grunnskóla staðarins þar sem Weise stundaði nám. Fyrst skaut hann öryggisvörð en svo braut hann sér leið inn í kennslustofu þar sem hann myrti kennara og fimm nemendur. Þegar lögregla kom á vettvang kom til skotbardaga milli hennar og piltsins og svo virðist sem hann hafi svipt sig lífi áður en náðist að yfirbuga hann. Fimmtán skólabörn særðust í skothríðinni. Nemendur og kennarar í skólanum voru að vonum miður sín vegna atburðarins. Sondra Hegstrom, sjónarvottur að ódæðinu, sagði að Weise hefði virst viti sínu fjær þegar hann kom á vettvang og morðin hefðu verið algerlega handahófskennd. "Hann glotti og veifaði til þeirra sem hann miðaði á, síðan sneri hann sér við og skaut einhvern annan. Ég horfði í augun á honum og tók síðan til fótanna." Ekkert er vitað um ástæður Weise fyrir þessu voðaverki. Honum er lýst sem einfara sem hinir krakkarnir stríddu. Faðir hans stytti sér aldur fyrir nokkrum árum og móðir hann liggur á hjúkrunarheimili með alvarlegan heilaskaða. Verndarsvæðið við Red Lake er um 400 kílómetra norður af Minneapolis. Þar búa fimm þúsund indíánar af Chippewa-ættbálknum og er fátækt almenn á meðal þeirra. Skotárásin í fyrradag er sú versta sinnar tegundar síðan tveir piltar í Littleton í Colorado drápu tólf skólasystkini sín og kennara í Columbine-skólanum í apríl árið 1999



Fleiri fréttir

Sjá meira


×