Innlent

Laugar í Sælingsdal lifna við á ný

Yfirgefinn heimavistarskóli að Laugum í Sælingsdal er að lifna á ný. Þar hafa skólabúðir verið opnaðar en með þeim skapast tíu heilsársstörf í Dalabyggð. Það þótti mörgum sárt þegar grunnskólanum í Sælingsdal var lokað fyrir fimm árum, en hann var þá einn nýjasti og veglegasti heimavistarskóli landsins, með nýrri sundlaug og íþróttahúsi. Þarna er rekið hótel á sumrin en húsakynnin hafa verið tóm á veturna þar til nú. Haraldur Líndal Haraldsson, sveitastjóri Dalabyggðar, segir að sveitarfélagið starfræki nú ungmenna- og tómstundabúðir að Laugum í samvinnu við Ungmennafélag Íslands og Saurbæjarhrepp, en þær séu ætlaðar níundu bekkingum. Starfið hafi farið mjög vel af stað og aðstandendur séu mjög bjartsýnir því nú sé aftur komið líf að Laugum og þetta skapi að minnsta kosti tíu heilsársstörf. Hópar níundu bekkinga, hvaðanæva af landinu, mest úr Reykjavík en lengst frá Hornafirði, hafa dvalið í skólabúðunum í vetur. Þessi glæsilegu mannvirki sem byggð voru upp fyrir mikla fjármuni nýtast því á ný. Haraldur segir að það sem mestu máli skipti fyrir sveitina sé að þarna sé kominn stór vinnuveitandi í jaðar sveitarfélagsins þar sem lögbýli hafi verið að leggjast af því fólk hafi skort tekjur. Með þessum breytingum verði þetta fólk vonandi áfram í sveitinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×