Erlent

Kynferðisofbeldi konum að kenna?

Ný dönsk skoðanakönnun leiðir í ljós að fjórði hver Dani telur að konur beri stundum á því ábyrgð ef þeim er nauðgað, sérstaklega ef þær klæða sig djarflega. Athyglisvert er að fleiri konur en karlar eru á þessari skoðun. Stjórnmálamenn hafa lýst yfir undrun og áhyggjum vegna þessa. Samkvæmt könnuninni sem Catinét Research gerði fyrir Ugebrevet A4 telja heldur fleiri innflytjendur en innfæddir Danir að nauðgun geti verið konum að kenna, 31 prósent á móti 23 prósentum. Athygli vekur að konur eru frekar á þessari skoðun. Af innfæddum segja 27 prósent kvenna að djarfklæddar kynsystur þeirra bjóði hættunni heim á móti 18 prósentum karla. 35 prósent kvenna eru einnig þessarar skoðunar á móti 27 prósentum karla úr hópi innflytjenda. Stjórnmálamenn eru forviða yfir þessum niðurstöðum. Mett Fredreksen, talsmaður sósíaldemókrata í jafnréttismálum, sagði í viðtali við Berlingske Tidende að sérstakar áhyggjur vekti "hversu rótgróin þessi gamaldags karlrembuviðhorf væru". Eva Kjer Hansen jafnréttismálaráðherra tók í svipaðan streng. "Þetta er algerlega óásættanlegt. Konur ráða sjálfar yfir líkama sínum og hverju þær klæðast. Þessi rannsókn sýnir að aðgerða er þörf," sagði ráðherrann í samtali við sama blað og boðaði vitundarvakningu um þessi mál. Könnunin kemur fram mitt í umræðu um konur og viðhorf samfélagsins til þeirra sem nú standa yfir í Danmörku. Þannig kærði hópur innflytjendakvenna í síðustu viku bænaformanninn Raed Hleihel og trúarsamtök múslima fyrir niðrandi ummæli og hótyrði í sinn garð. Hann hafði látið þau ummæli falla að konur væru stundum "verkfæri djöfulsins" og að himnaríki væri lokað konum sem færu á hárgreiðslustofur og notuðu ilmvatn og andlitsfarða. Kasem Said Ahmed, formaður íslömsku trúarsamtakanna í Danmörku, sagði Hleihel hafa "fullan rétt til að kalla konur "verkfæri djöfulsins"." Að mati kærenda er með ummælum sem þessum hvatt til ólíðandi ofbeldis gegn konum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×