Erlent

Lávarðar andsnúnir frumvarpi Blair

Lávarðadeild breska þingsins vísaði í gær lagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar um hryðjuverkavarnir aftur til neðri deildar þingsins. Tony Blair forsætisráðherra á í vök að verjast vegna málsins. Lávarðadeildin telur að margháttaðar breytingar verði að gera á frumvarpinu eigi það að hljóta náð fyrir þeirra augum. Nýju lögin eiga að leysa eldri hryðjuverkalög af hólmi en ef þau verða samþykkt verður yfirvöldum heimilt að takmarka frelsi grunaðra hryðjuverkamanna á ýmsan hátt. Þingmenn efri deildarinnar leggja hins vegar til að dómsúrskurð þurfi til að heimila þessar tálmanir og þær verði háðar mun strangari skilyrðum. Jafnframt krefjast þeir þess að lögin gildi einungis í eitt ár. Tony Blair forsætisráðherra var að vonum ósáttur við andstöðu lávarðadeildarinnar og hafnaði frekari málamiðlunum. "Neðri deildin samþykkti frumvarpið með afgerandi hætti. Við þurfum á þessari löggjöf að halda til að geta gætt öryggis fólksins í landinu," sagði hann í viðtali við breska ríkisútvarpið í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×