Erlent

Halda áfram baráttunni

Tsjetsjenskir uppreisnarmenn segja að morðið á leiðtoga þeirra Aslan Maskhadov, muni engin áhrif hafa á aðskilnaðarbaráttuna og vopnaða uppreisn þeirra gegn rússneskum yfirvöldum í Tsjetsjeníu. Maskhadov, sem var hófsamastur tsjetsjenskra uppreisnarmanna, var ráðinn af dögum í gær af rússneskum hermönnum. Fregnir af atburðinum eru óljósar en svo virðist sem rússneskar hersveitir hafi fengið þau fyrirmæli að ráðast inn í tsjetsjenska þorpið Tolstoy Yurt skammt frá Grosní í gær og handtaka Maskhadov. Aðstoðarforsætisráðherra Tsjetsjeníu, sem rússnesk stjórnvöld skipuðu, segir að það hafi átt að ná Maskhadov lifandi en lífverðir hans hafi hins vegar klúðrað málunum og því hafi Maskhadov verið drepinn. Maskhadov leiddi uppreisn Tsjetsjena og hafði sigur í stríðinu gegn Rússum á árunum 1994 til 1996 og var í kjölfarið kjörinn forseti Tsjestjeníu árið 1997. Maskhadov var þyrnir í síðu Pútíns Rússlandsforseta sem bolaði honum frá völdum þegar hann sendi rússneskar hersveitir aftur inn í Tsjetsjeníu árið 1999. Æ síðar hefur blóðug og grimmileg borgarastyrjöld geisað í héraðinu. Maskhadov var ætíð talinn einna hófsamastur af leiðtogum tsjetsjenskra uppreisnarmanna. Hann fordæmdi hryðjuverk annarra uppreisnarmanna eins og til dæmis mannránið í barnaskólanum í Beslan og kallaði ítrekað eftir samningaviðræðum við Rússa. Síðast fyrir viku síðan var haft eftir honum að það eina sem þyrfti til að leysa deiluna í Tsjetsjeníu væru hálftíma drengilegar viðræður á milli sín og Pútíns Rússlandsforseta. Pútín hefur hins vegar ætíð hafnað því að ræða málin við Maskhadov og segist ekki tala við hryðjuverkamenn. Akhmed Zakajev, sem nú er aðaltalsmaður uppreisnarmanna, segir að eftirmaður Maskhadovs verði valinn á næstu dögum. Fráfall hans hafi engin áhrif á uppreisnina sem haldi áfram.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×