Erlent

Kommúnistar halda völdum í Moldóvu

Kommúnistaflokkur Moldavíu, sem farið hefur með völd í þessu fátækasta landi Evrópu, fór með sigur úr býtum í þingkosningum sem fram fóru þar á sunnudag. Samkvæmt opinberum úrslitum kosninganna, sem birt voru í gær, fékk flokkurinn 46% atkvæða. Þar sem hann fékk 50% fylgi í síðustu kosningum árið 2001 voru þessi úrslit þó nokkurt bakslag fyrir hann og þó einkum leiðtoga hans, Vladimir Voronin, þar sem þau skila flokknum ekki nógu mörgum þingsætum til að tryggja honum endurkjör sem forseta landsins. Lýðræðisfylking Moldóvu (DMB), sem er miðjuflokkur, fékk nú 29% atkvæða sem er ríflega tvöföldun á fylginu frá 2001, sem þá vannst í nafni Braghis-bandalagsins sem á aðild að Lýðræðisfylkingunni. Lýðflokkur kristilegra demókrata var þriðji flokkurinn sem náði fulltrúum á Moldóvuþing að þessu sinni með tæplega 10% fylgi, sem er örlítið meira en hann fékk 2001. Fleiri flokkar náðu ekki yfir 6% fylgisþröskuldinn, sem þarf til að fá úthlutað þingsætum. Alls slógust 15 flokkar og framboðslistar um 101 þingsæti. @.mfyr:Vilja náin tengsl til vesturs Samkvæmt kosningakerfi Moldóvu þýða þessi úrslit að Kommúnistaflokkurinn fær 55 sæti, sem er nóg til að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Hins vegar þyrfti flokkurinn sex fulltrúa til viðbótar til að geta tryggt kjör síns manns í forsetaembættið, þ.e. atkvæði þriggja fimmtu hluta þingfulltrúa. Samkvæmt stjórnarskrá hefur þingið 45 daga frest til að kjósa forseta; takist það ekki er skylt að boða til nýrra þingkosninga. Báðir hinir flokkarnir, sem fengu hin 46 þingsætin, hafa lýst því yfir að þeir muni standa í vegi fyrir endurkjöri Voronins og knýja frekar fram endurtekningu kosninganna. Í stjórnartíð kommúnista síðustu fjögur árin hefur efnahagur landsins vænkast nokkuð, en það er eftir sem áður fátækasta land álfunnar. Kommúnistaflokkurinn var Moskvuhollur, en hefur nú undið sínu kvæði í kross og styður sem nánust tengsl við Evrópusambandið, en flestir landsmenn eru þeirri stefnu fylgjandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×