Erlent

Bera fram vantrauststillögu

Stjórnarandstaðan í Líbanon hyggst freista þess á þingi í dag að fá samþykkta vantrauststillögu á hendur ríkisstjórninni vegna deilna í tengslum við morðið á Rafik Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra landsins. Mikil óánægja er með ríkisstjórnina, sem er höll undir Sýrlendinga, og hefur stjórnarandstaðan haldið því fram að Sýrlendingar hafi staðið á bak við morðtilræðið fyrir tæpum tveimur vikum. Fjölmenn mótmæli hafa verið á götum höfuðborgarinnar Beirút á hverjum degi frá því að Hariri var ráðinn af dögum, en mótmælendur krefjast þess að 14 þúsund sýrlenskir hermenn hverfi frá Líbanon. Reuters-fréttaveitan hefur eftir heimildarmönnum á líbanska þinginu að ríkisstjórnin hafi tryggan meirihluta á þingi og því muni vantrauststillögunni verða hafnað þrátt fyrir hina miklu óánægjuöldu í landinu. Þúsundir manna söfnuðust saman á götum úti í Beirút í nótt til þess að mótmæla fyrirhuguðu banni stjórnvalda við opinberum mótmælum. Bannið, sem á að taka gildi í dag, var ákveðið eftir að ljóst var að andstæðingar og stuðningsmenn stjórnvalda höfðu boðað til mótmæla á sama tíma og sama stað í höfuðborginni. Gríðarlega öryggisgæsla er í höfuðborginni vegna þessa. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×