Erlent

Páfi tekur þátt í blessuninni

Jóhannes Páll páfi II mun taka þátt í vikulegri blessun á morgun frá herbregisglugga Gemelli-sjúkrahússins þar sem hann dvelur nú, án þess þó að mæla orð frá munni. Aðstoðarmaður hans mun lesa predikunina fyrir hann því páfa er ráðlagt af læknum að hvíla raddböndin á næstunni. Páfi var fluttur í skyndi á sjúkrahús í fyrradag og gekkst þar undir neyðaraðgerð vegna öndunarerfiðleika. Skorið var á barkann til að auðvelda öndun en óttast var að hann gæti að öðrum kosti fengið lungnabólgu. Talsmenn Páfagarðs segja hann einungis með flensu en að aðgerðin hafi gengið vel og að páfi sé eftir atvikum hress. Páfi mun taka þátt í maríubæn í dag en ekki er ljóst hvernig það á að fara fram. Talsmenn Páfagarðs segja páfa munu taka þátt í bæninni í sjúkrastofu sinni en ekki er enn ljóst hvort að komið verður upp einhverskonar mynd- eða hljóðrásartengslum við Péturstorgið.  Læknar segja ástæðu til að hafa áhyggjur af álaginu sem veikindi páfa hafa á líkama hans og ónæmiskerfi, en við heilsubrestinn bætist hár aldur og Parkinsonsveiki, auk þess sem Jóhannes Páll er þekktur fyrir að þrjóskast við og taka ekki ráðgjör lækna sinna vel.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×