Innlent

Tíu leikurum sagt upp

MYND/Pjtu
Tíu fastráðnum leikurum við Þjóðleikhúsið hefur verið sagt upp störfum. Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri segir þetta stefnuyfirlýsingu um breytt ráðningarkjör leikara við Þjóðleikhúsið. Sú breyting miði að því að móta þá hefð að sjálfsagt þyki að ráða listamenn til tiltekins tíma í senn til að skapa æskilegan sveigjanleika í starfi Þjóðleikhússins og svigrúm við þjóðleikhússtjóraskipti. Þjóðleikhússtjóri segist ekki fara í manngreinarálit heldur taki þann kost að segja upp samningum þeirra tíu sem starfað hafa skemmst við húsið. Hann segir ákvæði kjarasamnings leikara með þeim hætti að aðeins sé hægt að segja þeim upp starfi með 6 mánaða fyrirvara og miðast uppsögnin við upphaf leikárs, eða 1. september. Uppsagnirnar verði því að framkvæma fyrir 1. mars og því sé þessi tímasetning valin. Í yfirlýsingu þjóðleikhússtjóra segir annars orðrétt: Í leikhúsi er það list leikarans á sviðinu sem raunverulega er kjarna starfseminnar og ræður því hvort vel eða illa tekst til um sölu aðgöngumiða og þar með tekjuöflun. Leikritið og hvernig það er skrifað, eða hvaða erindi það á við samtímann, varðar auðvitað miklu, en ef leikaranum tekst ekki að mynda trúnaðarsamband við áhorfendur sína og fá þá til að samþykkja að þeir tilheyri öðrum veruleika um stundarsakir verður galdur leikhússins að engu, - sama hvað handritið er gott. Það má því með nokkrum rétti segja að rekstur leikhúsa standi og falli með því listafólki sem þar starfar og síðan því hvernig tekst til um verkefnaval og skipan í einstök hlutverk.Í leiklistarstofnun á borð við Þjóðleikhúsið er reglulega valinn nýr yfirmaður og ber hann listræna og fjárhagslega ábyrgð á rekstri stofnunarinnar í samræmi við ákvæði Leiklistarlaga frá 1998. Þjóðleikhússtjóri er skipaður tímabundið til fimm ára í senn og skylt að auglýsa stöðuna að þeim tíma liðnum, þó endurráða megi sama einstaklinginn aftur. Það er nokkuð ljóst að þetta er skynsamleg ráðstöfun sem ætti að þjóna því hlutverki Þjóðleikhússins að bjóða upp á fjölbreytt úrval sýninga, þar sem gætt er fagmennsku í vinnubrögðum og stefnt að listrænum gæðum í allri framsetningu auk þess að brydda upp á nýjungum.Sérstaða starfa í listum er umtalsverð og yfirleitt krefja þau viðkomandi um skýralistræn sýn, sem á móti getur verið æði persónubundin, engu síður en fagleg. Það er því margt sem mælir á móti því að einn og sami smekkurinn ráði of lengi í jafn valdamiklli stjórnunarstöðu og embætti þjóðleikhússtjóra óneitanlega er í íslensku listalífi.Þjóðleikhúsið er ríkisstofnun með fjölda einstaklinga á launaskrá og eru flestir þeirra sem þar starfa fastráðnir ríkisstarfsmenn, með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja. Það má vissulega færa fyrir því haldbær rök að ákveðin kjölfesta í fjárhagsstjórnun sé nauðsynleg, enda er stofnunin rekin að stærstum hluta fyrir opinbert fjármagn og starfar innan fjárlaga. Hitt er ef till vill umhugsunarvert, en það er sú staðreynd að leikarar Þjóðleikhússins, skuli flestir vera á ótímabundinni fastráðningu sem erfitt er að hrófla við nema kosta til miklum tíma og fjármunum, að ótöldum þeim sársauka sem uppsagnir óhjákvæmilega valda í flestum tilfellum. Þessi mótsögn felur í sér að það getur orðið vandkvæðum bundið fyrir nýjan þjóðleikhússtjóra að móta hið listræna starf, þar sem hann getur í raun fáu haggað og hefur lítið sem ekkert um það að segja úr hvaða hópi leilkstjórar velja leikara þegar þeir skipa í hlutverk.Sem nýr þjóðleikhússtjóri lít ég á þetta sem vandamál sem leita verður leiða til að leysa og það helst til framtíðar, með því að endurskoða ferli ráðninga og uppsagna listamanna. Til að gefa tóninn hef ég ákveðið að losa tíu fasta samninga leikara og fer ekki í manngreinarálit heldur tek þann kost að segja upp samningum þeirra tíu sem starfað hafa skemmst við húsið. Ákvæði kjarasamnings leikara eru með þeim hætti að aðeins er hægt að segja þeim upp starfi með 6 mánaða fyrirvara og miðast uppsögnin við upphaf leikárs, eða 1. september. Uppsögn verður því að framkvæma fyrir 1. mars og því er þessi tímasetning valin.Markmið er ekki að hafna þessu fólki listrænt, enda eru í einmitt í þessum hópi margir þeirra leikara sem standa í eldlínunni þessa dagana og bera uppi starfið. Vilji yfirstjórnar Þjóðleikhússins stendur til að endurráða sem flesta þessara einstaklinga aftur fyrir haustið, vilji þeir á annað borð starfa áfram og að þeirri forsendu gefinni að húsið geti boðið viðkomandi leikara verðug verkefni að takast á við. Slík ráðning verður þó tímabundin og í því felst nýbreytnin. Það er von mín að einnig verði hægt að bjóða fleiri unga leikara velkomna til starfa á sömu forsendum.Uppsagnir leikaranna tíu er stefnuyfirlýsing um breytt ráðningarkjör leikara við Þjóðleikhúsið og miðar sú breyting að því að móta þá hefð að sjálfsagt þyki að ráða listamenn til tiltekins tíma í senn til að skapa æskilegan sveigjanleika í starfi Þjóðleikhússins og svigrúm við þjóðleikhússtjóraskipti.Það er vilji til að þessi umræða verður tekin upp í kjaraviðræðum við Leikarafélag Íslands, sem fer með samningsumboðið fyrir leikara við Þjóðleikhúsið, en samningar þeirra eru lausir. Vegna sérstöðu Þjóðleikhússins þyrfti sú samningagerð að miða að því að hægt verði að bjóða upp á tímabundna samninga leikara til eins, tveggja eða þriggja ára í senn með þeim fyrirvara að segja megi þeim upp af hálfu annars hvors aðila áður en ráðning fellur sjálfkrafa úr gildi við lok samningstíma. Í þeirri umræðu er rétt og eðlilegt að miða við að tímabundin ráðning breytist í ótímabunda fastráðningu þegar leikari hefur náð ákveðnum aldri, til að tryggja eldri leikurum starfsöryggi og húsinu breidd í aldurssamsetningu leikara. Tinna Gunnlaugsdóttir þjóðleikhússtjóri



Fleiri fréttir

Sjá meira


×