Innlent

Verðbólgan má ekki vera nein

Til að rauðu strikin í kjarasamningum verði ekki virk næsta haust þyrfti verðbólga að vera engin fram að þeim tíma. Verðbólgan er nú tveimur prósentum yfir rauðu strikunum og spáð er að fasteignaverð á Reykjavíkursvæðinu hækki um fimmtung á næsta ári. Hækkanir á húsnæðisverði eru um helmingur af verðbólgunni eins og hún er í dag. Rauðu strikin eða endurskoðunarákvæði kjarasamninga gera ráð fyrir að þeim megi segja upp næsta haust, ef verðbólga verður meiri en 2,5 prósent. Fasteignaverð hækkaði um 25 prósent í fyrra en þrátt fyrir miklar hækkanir að undanförnu er það enn sjö prósentum undir meðaltali síðustu tólf ára miðað við kaupmátt, það er fjármagnskostnað og laun, að mati KB banka. Og miðað við launa- og vaxtaþróun sé verðið svipað nú og það var áður en bankarnir fóru að bjóða nýju íbúðalánin í ágúst í fyrra. Síðastliðin þrettán ár hefur fjármagnskostnaður lækkað um 43 prósent ef miðað er við markaðsvexti. Fasteignaverð, segir bankinn, er því ekki jafn hátt og það var á árunum 1999 til 2001 sé litið til þess að vaxtakostnaður fasteignalána hefur lækkað um 30 prósent og kaupmáttur á fasteignamarkaði vaxið að sama skapi. Það megi því búast við að fasteignaverð hækki um 20 prósent á næsta ári. Ingunn S. Þorsteinsdóttir, hagfræðingur ASÍ, segir segir að ef spá KB banka gangi eftir sé ljóst að verðbólgan muni áfram verða mjög há og ekki fara niður að verðbólgumarkmiðum Seðlanbankans fyrr en á næsta ári jafnvel.    



Fleiri fréttir

Sjá meira


×