Erlent

Framtíð kaþólsku kirkjunnar í húfi

Sögusagnir og getgátur tröllríða umræðunni um líðan Jóhannesar Páls páfa sem fluttur var á sjúkrahús í gær, rétt um hálfum mánuði eftir að hann kom þaðan. Framtíð kaþólsku kirkjunnar er sögð í húfi.  Páfi var fluttur í skyndi á sjúkrahús í gær og gekkst undir neyðaraðgerð í gærkvöldi. Skorið var á barkann til að auðvelda öndun en óttast var að hann gæti að öðrum kosti fengið lungnabólgu. Talsmenn Páfagarðs segja hann einungis með flensu en að aðgerðin hafi gengið vel og að páfi sé eftir atvikum hress. Það eru líkur á að páfi verði með flensu þar til yfir líkur, að mati fréttaskýrenda sem þekkja til í Páfagarði. Þeir telja að því verði haldið fram að páfi sé einungis með flensu þangað til að yfirlýsing verði send út þess efnis að hann sé fallinn frá. Í ljósi þessa og upplýsingaþurrðar í Róm er ekki furða þó að vangaveltur um heilsu páfa og framtíð kaþólsku kirkjunnar séu á kreiki. John Wauck, sérfræðingur í málefnum Páfagarðs, segist telja að páfinn muni sitja áfram. Eini raunverulegi möguleikinn á að páfinn segi af sér sé alger vanhæfni, t.d. ef hann væri í dauðadái. En á meðan páfinn sé skýr í hugsun og geti tjáð sig verði hann áfram páfi. „Þegar allt kemur til alls lofa fordæmin fyrir afsögn páfans ekki góðu. Dante setti síðasta páfa sem sagði af sér í helvíti ásamt þeim sem tók við af honum,“ segir Wauck.  Engu að síður er hermt að afsögn sé rædd meðal næstráðenda páfa, sem hafa töluverð áhrif á niðurstöðuna. Nýr páfi gæti ákveðið að skipta um menn í þeirri sveit svo að örlög þeirra sjálfra eru samtvinnuð örlögum Jóhannesar Páls. En þeir hafa líka áhrif á það, hver verður fyrir valinu þegar að því kemur. Annar sérfræðingur í málefnum Páfagarðs, Wilton Winn, segist sjá nokkra menn fyrir sér sem örlagavalda páfa: Sodano kardinála, forsætisráðherra Páfagarðs; Ratzinger kardinála, yfirmann kardinálaráðsins; Re kardinála, yfirmann biskuparáðsins og Ruini kardinála, sóknarprest Rómar sem stjórnar biskupsdæmi Rómar fyrir páfa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×