Innlent

Sögulegt tækifæri

Skipulagsráð Reykjavíkur hefur boðið Háskólanum í Reykjavík lóð í Vatnsmýrinni undir starfsemi sína. Lóðin er sunnan við Hótel Loftleiðir, rétt ofan við baðaðstöðuna í Nauthólsvík. Að sögn Dags B. Eggertssonar, formanns skipulagsráðs, hefur málið verið í vinnslu síðan í haust og er búist við að stjórn skólans taki ákvörðun um málið á næstu vikum. Háskóli Íslands er ekki langt undan og þegar fram líða stundir verður nánast öll starfsemi Landspítala-Háskólasjúkrahúss í Vatnsmýrinni líka. Með tilkomu Háskólans í Reykjavík á svæðið telur Dagur að þar með hafi skapast kjöraðstæður til sköpunar svonefnds þekkingarþorps í Vatnsmýrinni þar sem fyrirtæki og stofnanir af ýmsu tagi nýta samlegðaráhrifin af nálægðinni hvert við annað til að styrkja sig enn frekar. "Við erum í raun komin með svæði þar sem sjá má fyrir sér að allt að rúmlega 20.000 manns séu að störfum nánast daglega við háskóla, hátækni og þekkingu." Lóðaverð í borginni er hátt um þessar mundir enda er framboðið takmarkað. Dagur segir enn ekki ljóst hvort skólinn muni greiða fyrir lóðina. "Það er í rauninni aðferðafræði sem við eigum eftir að fara yfir. Við viljum fyrst og fremst vita hvort þeir komast þarna fyrir. Við þurfum nátturlega að líta yfir fyrri fordæmi og annað slíkt," segir hann og bendir á að á sínum tíma hafi Reykjavíkurborg gefið Háskóla Íslands mjög myndarlega lóðargjöf. Dagur vonast hins vegar til að stjórn skólans taki ákvörðun fljótt um málið enda er mikið í húfi. "Við erum mjög áfram um að Háskólinn i Reykjavík og tengd starfsemi verði þarna. Við teljum þetta eiginlega varða þjóðarhagsmuni að við nýtum þetta eina tækifæri sem við kannski nokkurn tímann fáum til að leggja saman alla kraftana á þessu sviði á þessu lykilsvæði." Flugvöllurinn verður að víkja Þegar jafn stórt verkefni er annars vegar er mikilvægt að vel sé að verki staðið. Þótt Erni Sigurðssyni, formanni Höfuðborgarsamtakanna, lítist mjög vel á að Háskólanum í Reykjavík verði fundinn staður í Vatnsmýrinni er hann ósáttur við þá leið sem borgaryfirvöld hafa farið. "Við viljum að allt svæðið verði skipulagt í heild áður en einstakir hlutar verði teknir. Það er verið að búa til frímerki hér og frímerki þar, það er í raun verið brjóta þetta fjöregg upp í nokkra búta og búa til úr því ónýta eggjaköku," segir hann. Að sögn Dags stendur heildarendurskoðun á skipulagi Vatnsmýrar fyrir dyrum og þar verður framtíðarstaðsetning skólans tekin með í reikninginn. Örn gefur hins vegar lítið fyrir það. "Þetta verður að gera áður en menn leggja hraðbraut í gegnum mýrina og negla niður staðsetningu á nýrri flugstöð við flugvöllinn. Að skipuleggja tvo háskóla og eitt landssjúkrahús krefst þess að menn setjist niður núna, ekki seinna en síðdegis." Síðast en ekki síst er það lykilatriði í huga Arnar að flugvöllurinn víki, hann segir þekkingarþorp útilokað með flugvöll í því miðju. "Þetta eru allt mikilvægar stofnanir og þær eiga það ekki skilið að lenda í einhverju flugvallarúthverfi í borg. Háskólinn í Reykjavík á það bara skilið að honum verði ekki bara hrúgað þarna niður án hugsjónar." Fornebu fyrirmynd? Þekkingarþorp eru þekkt víða um heim og er Kísildalurinn í Kaliforníu sjálfsagt það frægasta. Þar nýta menn samlegðaráhrif með nálægð og greiða þannig fyrir samstarfi á milli háskóla og fyrirtækja til að búa til frjótt nýsköpunarumhverfi. Þekkingarþorpin eru þannig meira en summan af þeim fyrirtækjum og stofnunum sem þar eru. Stefán Ólafsson, prófessor og forstöðumaður Borgarfræðaseturs Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar, segir svæði á borð við þessi gegna lykilhlutverki í þekkingarhagkerfi framtíðarinnar. "Alls staðar í heiminum í dag er litið til svona þyrpinga sem eins konar aflstöðvar fyrir framþróun þekkingarhagkerfisins sem gengur út á að nýta þekkingu til nýsköpunar og framleiðslu," segir hann. Auk háskólanna getur fjölbreytt flóra fyrirtækja þrifist í þekkingarþorpum, til dæmis tölvu- og hugbúnaðarfyrirtæki, efnistæknifyrirtæki, upplýsingaveitur og líftæknifyrirtæki en þegar er eitt slíkt í Vatnsmýrinni, Íslensk erfðagreining. "Þetta er byggð sem að fellur einstaklega vel að miðborgarumhverfi því þetta getur orðið mjög fallegt og spennandi svæði," segir Stefán. Stefán bendir á nærtækt dæmi um þekkingarþorp en það er Fornebu-svæðið í Osló þar sem gamli alþjóðaflugvöllurinn var. "Það er tekið að stórum hluta undir svona þróun þekkingarþyrpingar í bland við íbúabyggð og það getur þess vegna verið mjög álitleg fyrirmynd fyrir Reykjavík að hafa til hliðsjónar."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×