Erlent

Páfi liggur ekki banaleguna

Jóhannes Páll páfi liggur ekki banaleguna samkvæmt því sem talsmenn Páfagarðs segja. Hann var í gærdag fluttur á Gemelli-sjúkrahúsið í Róm í annað skipti á innan við mánuði. Skorið var á barka páfa í gærkvöldi og þrædd í hann slanga til að auðvelda honum öndun en óttast var að hann fengi annars lungnabólgu sem hefði reynst honum hættuleg. Opinber skýring sjúkrahússlegunnar er sú að páfi sé með flensu en það er þó að líkindum Parkinsonsveikin sem veldur því að páfi er jafn illa haldinn og raun ber vitni. Talið er að tuttugu ár séu síðan að sjúkdómurinn gerði fyrst vart við sig hjá páfa og nú er svo komið að vöðvahreyfingar eru margar hverjar mjög erfiðar, t.a.m. er að líkindum erfitt fyrir hann að kyngja og nánast vonlaust að hósta. Því safnast slím saman og getur valdið mun meiri vandræðum en hjá fólki sem annars er hraust. Auk þess segja fréttaskýrendur sem þekkja vel til í Páfagarði víst að því verði haldið fram að páfi sé einungis með flensu þangað til að yfirlýsing verði send út þess efnis að hann sé fallinn frá. Í ljósi þessa, og þess að yfirlýsingar talsmanna Páfagarðs eru stuttar, loðnar og langt á milli þeirra, er ekki furða að vangaveltur um heilsu páfa séu á kreiki. Pólskur prestur, sem þekkir Jóhannes Pál vel, segir hann hins vegar ekki liggja banaleguna og að fólki væri nær að venjast því að páfi væri fluttur á sjúkrahús með reglulegu millibili. Talsmaður Páfagarðs greindi nú skömmu fyrir fréttir frá því að páfi hefði vaknað í morgun hress eftir atvikum og borðað morgunmat. Hann andar nú án aðstoðar en í gærkvöldi var hann tengdur við öndunarvél eftir neyðaraðgerðina. Hann getur þó ekki talað og verður mállaus um hríð í kjölfar aðgerðarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×