Innlent

Lög um málefni aldraðra úrelt

Félag eldri borgara í Reykjavík telur að lög um málefni aldraðra séu byggð á úreltum sjónarmiðum sem ekki eru í tak við nútímaleg viðhorf og eru dragbítur á eðlilega og nauðsynlega framþróun. Í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins á laugardag er því meðal annars beint til stjórnvalda að þau láti kanna hvort ekki sé rétt að flytja yfirstjórn málefna aldraðra frá heilbrigðisráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins. Þá er þess óskað að heildarstefna í málaflokknum verði mörkuð og skuli hún byggð á hugmyndafræði um jafnrétti og mannréttindi. Einnig var samþykkt hvatning til yfirvalda um fjölgun hjúkrunarrýma, þjónustuíbúða og dagvistarplássa og því beint til stjórna hjúkrunarheimila að ófaglært starfsfólk verði hvatt til að sækja námskeið í umönnun. Einnig að útlendu starfsfólki verði gert kleift að læra íslensku að frumkvæði og með stuðningi vinnuveitenda. Þá er skorað á lyfjaverðsnefnd að lækka lyfjaverð til samræmis við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×