Innlent

Vinni saman að reykingabanni

Atvinnulífið og stjórnvöld eiga að vinna saman að jafnmikilvægum málum og banni við reykingum á veitingastöðum. Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar sem óttast um afdrif vínveitingastaða verði slíku banni komið á. Um þessar mundir láta fáir sér detta í hug að sitja í rútu, flugvél eða leigubíl og kveikja í sígarettu. Það er þó ekki svo langt síðan það var æmt og skræmt þegar reykbanni var komið á þar. Samkvæmt frumvarpi sem Siv Friðleifsdóttir hefur lagt fram á að ganga skrefinu lengra og banna reykingar á kaffihúsum, veitingahúsum og skemmtistöðum. Verði frumvarpið samþykkt tekur það gildi vorið 2006. Reykbann er algengt í matsölum veitingahúsa og því má spyrja hvort veitingamenn sjálfir telji ekki slíka lagasetningu vera eðlilegt næsta skref. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að það megi vel vera en svona lagað verði ekki gert í skyndingu. Fjölmörg fyrirtæki komi til með að tapa fé vegna þessa, s.s. skemmtistaðir og barir, það hafi reynslan erlendis sýnt. Taka verði tillit til þeirra. Erna segir að ágætlega hafi gengið hjá norskum veitingamönnum síðasta sumar. Reykingamenn komu sér þá fyrir úti undir gashiturum, en þeir ku hafa selst vel. Veturinn hafi þó reynst erfiður og nú stefni í gjaldþrot hjá eigendum bara og skemmtistaða. Þegar svo mikið sé húfi fyrir eigendur veitingastaða eigi að hafa við þá samráð. Atvinnulífið og stjórnvöld verði að vinna saman að málinu og Samtök ferðaþjónustunnar vinni sína heimavinnu í þessum efnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×