Innlent

Ekki forstjóri Icelandair

"Nei, ég er ekki að verða forstjóri Icelandair," segir Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur. "Ég hefði glaður viljað taka það starf að mér en það er ekki þannig," segir Jón Karl Helgason kvikmyndagerðarmaður. Í fréttum Útvarps á miðvikudag og í leiðara Morgunblaðsins í gær var sagt að Jón Karl Helgason hefði verið ráðinn forstjóri Icelandair. Þarna var misfarið með föðurnafn því hið rétta er að hinn nýráðni Jón Karl er Ólafsson. Raunar kom hið sanna fram annars staðar í fréttum Útvarpsins, sem og í frétt Morgunblaðsins af ráðningunni. "Pabbi hringdi í mig og lét mig vita af þessu, ég heyrði þetta ekki sjálfur," segir Jón Karl bókmenntafræðingur. Og hann er ekki forstjóralegri en svo að dóttir hans fjögurra ára sagði honum að hann væri ekki forstjóri og hafði ekki heyrt fáránlegri hlut. Hann segist þó treysta nafna sínum kvikmyndagerðarmanninum fyrir starfinu. "Honum treysti ég til hvers sem er. Hann er einn fjölhæfasti maður á jarðríki. Í það minnsta í kvikmyndageiranum, þar sem ég held að hann geti leikið öll hlutverk, báðum megin myndavélar." Og Jón Karl er einmitt með kvikmyndatökuvélina á lofti þessa dagana, er að taka upp nýja þáttaröð um bakarann þrekvaxna Jóa Fel. Jón Karl bókmenntafræðingur, sem vinnur hjá Bjarti, segist hafa gaman af þessum ruglingi og ekki geta annað en hlegið. "Annars hitti ég nú nafna minn forstjórann einu sinni og finnst hann betri í þetta starf en ég." Jón Karl Helgason kvikmyndagerðarmaður hefur einnig gaman af og kann að auki skýringu á ruglingnum. "Það er komin einhver þreyta í þjóðfélagið. Ég sá að í þinginu voru menn að setjast í gamla stóla og ruglast á nöfnum og titlum. Skammdegið hefur farið illa með menn og þeir ekki hvílst heldur keyrt sig út. Þreytan er að koma í ljós. Það er ekki annað að gera en að treysta á hækkandi sól."
Jón Karl Ólafsson forstjóri.MYND/Stefán



Fleiri fréttir

Sjá meira


×