Innlent

Ævintýri sveitavarga

"Þetta gekk mjög vel og ég varð ekki var við annað en að góður rómur væri gerður að leik okkar," segir Heiðar Sigurðsson, söngvari og hljómborðsleikari hornfirsku hljómsveitarinnar KUSK sem lék um síðustu helgi á þorrablóti Íslendingafélagsins í Stokkhólmi. Líkt og fram kom í Fréttablaðinu á mánudag var þetta í fyrsta sinn sem hornfirsk hljómsveit spilar í útlöndum. Heimildir eru í það minnsta ekki til um annað. "Það var mikið stuð og við spiluðum til hálf fjögur um nóttina. Menn voru greinilega þyrstir í íslenskt sveitaballapopp," segir Heiðar en 270 manns sóttu blótið. Það er um 340% fleiri en í fyrra, þegar aðeins 80 mættu á svæðið. Allt fór vel fram, ekkert var slegist og Heiðar er að vonum sáttur. "Þetta var frábær ferð og mjög skemmtilegt fyrir okkur sveitavarginn að komast í svona ævintýri." Þó að þetta sé í fyrsta sinn sem hornfirsk hljómsveit heldur utan er ekki þar með sagt að tónlistarfólk frá staðnum hafi ekki gert það gott í gegnum árin. Hljómborðsleikarinn geðþekki Grétar Örvarsson er Hornfirðingur og það eru líka djassbræðurnir kunnu Ómar og Óskar Guðjónssynir. Þá er leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir frá Hornafirði en hún hefur lengi duflað við tónlistina meðfram leikhússtörfum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×