Innlent

Strætisvagn eyðilagðist í eldi

Strætisvagn eyðilagðist í eldi á Sæbraut á móts við gamla Útvarpshúsið á níunda tímanum í morgun en engan sakaði. Vagnstjórinn var nýbúinn að hleypa út farþegum á Lækjartorgi úr aukaferð og var á leið inn á Kirkjusand þegar viðvörunarljós kviknaði í mælaborðinu. Í sömu andrá gaus upp eldur í vélarrúminu, aftast í vagninum. Ekkert sló á eldinn þótt vagnstjórinn tæmdi slökkvitæki á hann og að nokkrir vegfarendur gerðu það líka. Þegar slökkviliðið kom á vettvang skömmu síðar var vagninn alelda að aftan. Slökkvistarf gekk vel en vagninn er talinn ónýtur. Talsverðar umferðartafir urðu vegna þessa. Vagninn er ekki nema tveggja ára af Scania-gerð og eru 28 álíka vagnar í flota Strætó. Vegna þessa er nú lagt ofurkapp á að rannsaka eldsupptök til að fyrirbyggja að viðlíka geti gerst í öðrum vögnum sömu gerðar. Sérfræðingar frá framleiðanda, tryggingafélaginu og viðhaldslið Strætó á Kirkjusandi vinnur nú að rannsókninni en ekki þykir ástæða til að taka hina vagnana úr umferð á meðan, enda eru þeir samanlagt búnir að aka milljónir kílómetra án þess að neitt hafi komið upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×