Erlent

Deila um vegatálma

Ísraelskir og palestínskir samningamenn deildu í gær um hvernig staðið skyldi að brottför Ísraelshers frá Jeríkó á Vesturbakkanum og hvað gera skyldi við vegatálma og hersveitir í nágrenni borgarinnar. Jeríkó er ein fimm borga og bæja á Vesturbakkanum sem Ísraelar hafa heitið því að hverfa frá og láta Palestínumönnum eftir að stjórna og halda uppi öryggisgæslu í. Deilurnar um brotthvarfið frá Jeríkó snúa einkum að tveimur kröfum Palestínumanna. Þeir vilja að Ísraelar fjarlægi alla vegatálma og eftirlitsstöðvar í nágrenni Jeríkó og að ísraelskar hersveitir hverfi einnig frá þorpi í nágrenni Jeríkó. Ísraelar eru ósáttir við þessar kröfur. Samningar eru ekki hafnir um brotthvarf Ísraela frá fjórum öðrum borgum á Vesturbakkanum og því getur niðurstaðan í samningum um Jeríkó haft mikið að segja um hvernig staðið verður að brotthvarfi Ísraelshers annars staðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×