Erlent

60 ár frá loftárásinni á Dresden

Sextíu ár eru í dag liðin frá loftárásum bandamanna á borgina Dresden í Þýskalandi. Margir sagnfræðingar segja að þessi árás hafi verið hreinn stríðsglæpur sem kostaði hundruð þúsunda óbreyttra borgara lífið. Loftárásirnar á Dresden, sem hófust 13. febrúar árið 1945, stóðu í tvo daga. Meðal annars var varpað á hana þúsundum tonna af eldsprengjum. Borgin brann svo í sjö daga og átta nætur. Hitinn í borginni var um 1800 gráður á selsíus. Eldurinn saug í sig allt súrefni í loftinu og úr því varð eldstormur sem brenndi nánast alla miðborgina til kaldra kola. Margir hafa sagt að þessi árás hafi verið hreinan stríðsglæpur því hernaðarlegt mikilvægi Dresden hafi verið hverfandi. Þar voru engar hersveitir heldur aðeins íbúar borgarinnar og tugþúsundir varnarlausra flóttamanna. Nýnasistar gengu um götur Dresden í dag með spjöld þar sem árásirnar voru kallaðar þjóðarmorð. En það þarf ekki nasista til að halda þessu fram. Margir vestrænir sagnfræðingar eru sömu skoðunar. Hart er deilt um hversu margir létu lífið. Tala fallinna hefur verið að lækka undanfarin ár,og er nú komin niður í 35 þúsund. Þetta segja sagnfræðingarnir að sé fáránleg tala. Þeir telja að þeir sem fórust hafi verið einhvers staðar á bilinu 135 þúsund til 200 þúsund. Og hærri tölur hafa verið nefndar.
Dresden eftir loftárásina árið 1945.MYND/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×