Erlent

Unglingspilti bjargað úr fljóti

Slökkviliðsmenn í Los Angeles björguðu í gær unglingspilti sem hafði fallið í Los Angeles fljót en það er nú í miklum vexti. Miklar rigningar hafa verið í Suður-Kaliforníu undanfarna daga og Los Angeles fljótið er nú orðið ein ólgandi straumkviða. Tveir unglingspiltar duttu með einhverjum hætti út í ána í gær. Annar þeirra var svo heppinn að hann bar að lágum bakka og gat kraflað sig þar á land. Hinn hékk aftur á móti utan í þrettán metra háum steinvegg. Vinur hans þaut til og kallaði á slökkviliðið sem þegar sendi björgunarsveit á vettvang. Það mátti ekki tæpara standa því drengurinn var alveg að örmagnast. Einn slökkviliðsmannanna lét sig síga niður til drengsins, náði á honum góðu taki, og þeir voru svo dregnir upp. Drengurinn var fluttur á sjúkrahús til rannsóknar en það amaði ekki mikið annað að honum en að hann skalf mikið, bæði af kulda og hræðslu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×