Erlent

Vopnahléið ótryggt vegna átaka

Vopnahléið sem Ísraelar og Palestínumenn lýstu yfir á þriðjudag er ótryggt eftir að tveir Palestínumenn féllu fyrir hendi ísraelskra hermanna og palestínskir vígamenn skutu úr sprengjuvörpum á byggð ísraelskra landtökumanna á Gaza. Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar, fyrirskipaði öryggissveitum í gær að koma í veg fyrir frekari árásir á Ísraela. Þannig vildi hann reyna að viðhalda vopnahléinu. Ísraelar hafa skilyrt frekari framþróun í friðarátt því að Palestínumenn ráðist ekki á Ísraela. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, lýsti því yfir í viðtali við ísraelska blaðið Haaretz að hann væri reiðubúinn að sleppa lausum Palestínumönnum sem gert hefðu árásir á Ísraela. Þetta er stefnubreyting af hans hálfu því áður hafði hann sagt að slíkt kæmi ekki til greina. Með þessu kemur hann til móts við kröfur Palestínumanna. Hamas-liðar skutu 56 sprengjum og eldflaugum að tveimur landnemabyggðum Ísraela á Gaza án þess að nokkur særðist og sögðu það hefndarráðstöfun fyrir tvo Palestínumenn sem Ísraelar felldu. Hamas-liði var skotinn þar sem hann var með sprengiefni og óbreyttur borgari þegar hann ók í gegnum vegatálma Ísraela.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×