Erlent

Sex á sjúkrahús eftir opnun IKEA

Sex voru fluttir á sjúkrahús vegna meiðsla sem þeir hlutu við opnun nýrrar IKEA-verslunar í London. Þeir voru þó ekki þeir einu sem slösuðust við opnunina því alls slösuðust 22 í troðningi þrátt fyrir að ekki þyrfti að senda alla á sjúkrahús. Stjórnendur verslunarinnar ætluðu að hafa opið í sólarhring en sáu sitt óvænna og lokuðu eftir aðeins 41 mínútu. Ástæðan var mikill troðningur sem fylgdi þeim 6.000 viðskiptavinum sem þyrptust á staðinn, en það voru mun fleiri en búist var við. Búið var að auglýsa margvísleg tilboð til að freista væntanlegra viðskiptavina. Meðal annars gátu heppnir viðskiptavinir tryggt sér leðursófa fyrir andvirði 5.400 króna. Það kom stjórnendum IKEA hins vegar mjög á óvart að 6.000 viðskiptavinir mættu á staðinn þegar búðin var opnuð á miðnætti og sögðu þeir í kjölfarið að þeir hefðu farið öðruvísi að hefðu þeir búist við slíkri aðsókn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×