Erlent

Rice hótar Írönum refsiaðgerðum

Utanríkisráðherra Írans hefur beðið Japana um að miðla málum milli Bandaríkjanna og Írans, vegna kjarnorkuáætlunar hins síðarnefnda. Condoleezza Rice hótar Írönum refsiaðgerðum. Evrópusambandið hefur undanfarin misseri reynt að ná samningum við Íran um að hætta að framleiða kjarnorkueldsneyti sem hægt er að nota til þess að framleiða kjarnorkusprengjur. Íranar segja að framleiðsla þeirra sé eingöngu í friðsamlegum tilgangi. Þeir ætli að nota kjarnorkuver sín til orkuframleiðslu og einskis annars og til þess hafi þeir fullan rétt sem sjálfstæð þjóð. Enginn efast um sjálfstæði Írans en hins vegar treysta vestrænir leiðtogar þeim ekki til þess að nota úranið sitt eingöngu í friðsamlegum tilgangi. Evrópusambandið hefur því meðal annars boðist til þess að útvega þeim það eldsneyti sem þeir þurfi til orkuframleiðslu í kjarnorkuverum sínum. Þessu hafa Íranar fram til þessa hafnað. Bandaríkjamenn líta á beiðni Írans til Japana um málamiðlun sem málþóf og undanbrögð. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í dag að Íranar þyrftu að gera sér grein fyrir því að ef þeir féllust ekki á tilboð Evrópusambandsríkjanna yrði máli þeirra vísað til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna til þess að ákveða refsiaðgerðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×