Erlent

Föst skot ganga á milli þjóðanna

Kalt stríð er hafið á milli stjórnvalda í Bandaríkjunum og Íran og harkalegar yfirlýsingar ganga á víxl. Írönsk yfirvöld segjast munu bregðast af fullri hörku við bandarískri árás á íranskt kjarnorkuver. Slík árás hefði aðeins þær afleiðingar í för með sér að Íranar tvíeflist í kjarnorkuframleiðslu sinni. Deilur Bandaríkjastjórnar og Írans hafa verið að stigmagnast að undanförnu. Í grunninn stendur þessa deila auðvitað um stjórnarfar í Íran en hún kristallast í orðaskaki um kjarnorkuáætlun landsins. Vestræn yfirvöld hafa áhyggjur af þeim aukna krafti sem hefur virst í kjarnorkuframleiðslu Írana og óttast að stjórnvöld hyggist framleiða kjarnorkuvopn á laun. Stjórnvöld í Íran harðneita þessu og segjast aðeins framleiða kjarnorkueldsneyti til að knýja kjarnorkuver og slík raforkuframleiðsla sé grundvallarréttur hverrar þjóðar. Evrópusambandið hefur tekið frumkvæðið í að reyna að semja á friðasamlegan hátt við yfirvöld í Íran og fá þau til að láta af kjarnorkuáætlun sinni. Þegar hefur tekist að fá þau til að fresta áætluninni en framtíðin er ekki björt ef marka má yfirlýsingar stjórnvalda í Íran. Æðsti yfirmaður öryggisráðs Írana fullyrti í viðtali við Reuters-fréttastofuna í dag að Íran myndi aldrei láta undan þrýstingi Vesturlanda í þessu tilliti. Orrahríðin magnast því bandarískir ráðamenn mættu líka hver á fætur öðrum í sunnudagsspjallþætti í dag. Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, sagði að Bandaríkjamenn ættu í vandræðum með ríkisstjórn Írans, ekki aðeins sökum vilja hennar til að koma upp kjarnavopnum heldur einnig þar sem hún hefði stutt hryðjuverkamenn um árabil. Þá tók Cheney undir orð George Bush þar sem hann allt að því hvatti ungt fólk í Íran til að rísa upp gegn yfirvöldum. Cheney sagði að forsetinn vildi undirstrika að Bandaríkin styddu þrá Írana eftir frelsi og lýðræði. Hann hefði sagt að Bandaríkjamenn hvettu umbótasinna í Íran til að vinna að því að byggja upp raunverulegt lýðræði, lýðræði sem fæli ekki ókjörnum mönnum gífurleg völd eins og raunin væri nú. Cheney sagði að Bandaríkjastjórn teldi að slíkt grefði undan friði og stöðugleika í Miðausturlöndum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×