Erlent

Spillingu mætt af hörku

„Spillingu verður mætt með hörku,“ segir Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, og heitir því að sækja yfirmenn í olíusöluhneykslinu til saka. Annan hefur sjálfur verið sakaður um að tengjast málinu og enn eru ekki öll kurl komin til grafar. Olíusöluáætlun Sameinuðu þjóðanna var sett af stað í miðju viðskiptabanni á Írak á meðan landið laut forystu Saddams Husseins. Hún miðaði að því að selja olíu Íraka og kaupa mat fyrir sveltandi landsmenn fyrir ágóðann. Fyrsta rannsóknarskýrslan, af nokkrum reyndar, um þessa áætlun hefur valdið miklum taugatitringi innan stofnunarinnar enda kom í ljós að æðsti yfirmaður áætlunarinnar hafði hagnast verulega á sinni vinnu og reyndar virðist sem ríkisstjórn Saddams hafi beinlínis greitt honum mútur. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóiðanna, segir að hann haldi að hann sé ekki sá eini sem hafi brugðið við að lesa skýrsluna. Yfirmaðurinn hafi unnið lengi fyrir Sameinuðu þjóðirnar og að starfsmenn Sameinuðu þjóðanna hafi alls ekki búist við neinu þessu líku. Annan heitir því að viðkomandi verði dregnir til ábyrgðar. Hann segir að hjá stofnun eins og Sameinuðu þjóðunum þurfi að taka öllum vísbendingum um spillingu alvarlega og að vanvirðing við reglur skapi hættu. Slíkt sé ekki hægt að láta fram hjá sér fara. Annan er sjálfur flæktur í málið því sonur hans Kojo vann fyrir undirverktakafyrirtæki sem kom að þessari olíusöluáætlun. Beðið er skýrslu um það hvort eitthvað óhreint finnist í pokahorni Annan-feðganna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×