Sport

Stærsti íþróttaviðburður ársins

Í kvöld fer fram úrslitaleikurinn í amerísku NFL-deildinni þar sem keppt verður um ofurskálina svokölluðu, eða Super Bowl. Um er að ræða stærsta íþróttaviðburð ársins og fær úrslitaleikurinn í NFL öllu jöfnu gríðarlegt áhorf út um allan heim. Búist er við að um helmingur íbúa Bandaríkjanna muni horfa á leikinn í kvöld. Ekkert hefur verið til sparað til að gera sýninguna sem glæsilegasta. Heimsfrægir tónlistarmenn á borð við Paul McCartney munu skemmta í hálfleikssýningunni sem McCartney sjálfur segir að sé "sú flottasta sem hægt sé að taka þátt í." Það eru lið New England Patriots og Philadelphia Eagles sem leiða saman hesta sína að þessu sinni. Langflestir búast við sigri Patriots sem hafa á gríðarlega öflugu liði á að skipa og eru auk þess núverandi NFL-meistarar. Með sigri í kvöld mun New England trygga sér sinn þriðja meistaratitil á síðustu fjórum árum á meðan Eagles hafa ekki unnið Super Bowl frá árinu 1960. Helsti styrkur Patrios liggur í einstaklega sterkri liðsheild sem Bill Belichick, þjálfari liðsins, hefur náð að mynda á síðustu árum. Leikstjórnandi liðsins er Tom Brady og býr hann yfir mikilli reynslu sem mun án efa koma liðinu til góða. Spekingar ytra segja að ef Eagles ætli sér að eiga möguleika á sigri verði liðið að spila frábæra vörn og freista þess að halda aftur af hlaupara Patriots, Corey Dillon, sem hefur farið á kostum það sem af er úrslitakeppninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×