Erlent

Vilja stól forsætisráðherra

„Sjítar vilja forsætisráðherraembættið í nýrri stjórn og munu ekki láta það af hendi,“ sagði Hamed Al-Bayati, varautanríkisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar í Írak, við Reuters-fréttastofuna í dag. Al-Bayati tilheyrir bandalagi sjíta sem hefur fengið um tvo þriðju hluta atkvæða í kosningunum í Írak nú þegar 35 prósent hafa verið talin. Flokkur Iyads Allawis, forsætisráðherra bráðabirgðastjórnarinnar, kemur næstur með um 18 prósent atkvæða en niðurstöður eru ekki komnar úr norðurhéruðum landsins þar sem Kúrdar eru fjölmennastir. Þar var kosningaþátttaka góð og er því búist við að rödd Kúrda muni heyrast vel á írakska þinginu. Yfirkjörstjórn í Írak segir að niðurstaðna í kosningunum sé að vænta fyrir 10. febrúar en talsmaður kjörstjórnarinnar sagði að í kjölfarið yrðu rannsakaðar þær kvartanir og athugasemdir sem gerðar hefðu verið við kosningarnar og því fengjust endanlegar niðurstöður ekki fyrr en rúmri viku síðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×