Erlent

Flak flugvélar fundið í Afganistan

Enginn komst lífs af í flugslysinu sem varð í Afganistan fyrir tæpum tveimur sólarhringum. Flak vélarinnar fannst fyrst í morgun skammt frá þorpi sem liggur aðeins 35 kílómetra suðaustur af höfuðborginni Kabúl. Þetta er mannskæðasta flugslys sem orðið hefur í Afganistan. Alls voru 104 um borð í vélinni, þar af 96 farþegar. Flestir voru frá Afganistan en meðal hinna látnu eru níu Tyrkir, þrír bandarískir hjálparstarfsmenn, þrír Ítalir og einn frá Íran. Hersveitir Atlantshafsbandalagsins leituðu vélarinnar ásamt afgönskum hermönnum frá því að hún missti talstöðvarsamband við flugturninn á Kabúlflugvelli, en vélin þurfti að hverfa frá lendingu á flugvellinum vegna snjókomu og síðar spurðist ekkert til hennar. Gríðarlegt fannfergi hefur verið í Kabúl undanfarnar vikur og muna menn ekki annað eins. Daginn sem snúa þurfti vélinni frá flugvellinum kyngdi niður allt að hálfum metra af jafnföllnum snjó. Leit að vélinni gekk því illa vegna færðarinnar en einnig vegna þess að mikil og há fjöll umkringja Kabúlflugvöll og samgöngur eru erfiðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×